Skógburstinn breiðir úr sér

Lirfa fiðrildis sem á íslensku kallast skógbursti fannst í Sandvíkurhreppi á dögunum. Skógburstinn er staðbundinn í uppsveitum Suðurlands og austur í Landeyjar.

Skv. Skordýratali Erlings Ólafssonar frá 1991 er tegundin sú eina sinnar ættar hérlendis. Hún hefur nokkuð sérstakt útlit og dregur nafn sitt af litríkum burstum á bakinu.

Að sögn Þóru Hrafnsdóttur hjá Náttúrufræðistofu Kópavogs er skógburstinn staðbundinn en útbreiðslan er bundin við Suðurlandsundirlendið, allt frá Grímsnesi austur í Landeyjar. „Hann lifir í gróðursælu landi og fæðuval lirfanna er fjölbreytt, t.d. mjaðjurt, kornsúra, njóli, víðir og birki,“ sagði Þóra í samtali við sunnlenska.is.

Erlendis er skógburstinn meindýr í gróðrarstöðvum og vinnur oft mikið tjón en hér heima hefur hann m.a. valdið gróðurskemmdum í Grímsnesinu.

Kvendýrin, þ.e. fullvaxin fiðrildi, eru svo til vænglaus og hafa aðeins vængstubba í stað fullþroskaðra vængja. Þau verpa eggjum skömmu eftir að þau
klekjast úr púpunni en eggin klekjast út í byrjun sumars og lirfurnar eru á ferli fram undir mitt sumar. Karldýrin hafa brúnleita fullþroskaða vængi og flugtími þeirra er frá 9. júlí fram undir lok ágústmánaðar.

Fyrri greinAldamótahátíðin hefst á föstudag
Næsta greinBotnlaus gjá undir Víðivöllum