Skógasafn fær þrjá gripi úr vélasafni Landsbankans

Þann 18. apríl bárust Byggðasafninu í Skógum merkilegar gjafir er Sigurður Skagfjörð Ingimarsson, útibússtjóri Landsbankans á Hvolsvelli, færði safninu til varðveislu tvær ritvélar og einn peningakassa eða sjóðvél.

Allir gripirnir koma úr vélasafni Landsbankans. Elsti gripurinn er ritvél, smíðuð í Bandaríkjunum 1893 af gerðinni Blickensderfer, þá peningakassi af gerðinni National sem kom til landsins 1914, en kaupandi var Álnavöruverslun Björns Kristjánssonar í Reykjavík og loks ritvél af gerðinni British Empire, framleidd í Englandi í kringum 1925. Hér er um að ræða einstaklega fallega gripi í afar góðu ástandi sem auka enn á fjölbreytni í safnkosti Skógasafns.

Fjögur íslensk söfn munu varðveita alls 42 muni úr vélasafni Landsbankans. Öldungadeild Skýrslutæknifélags Íslands mun varðveita níu gripi til viðbótar og Landsbankinn mun sjálfur varðveita 22 gripi. Söfnin sem fá gripina til varðveislu eru Borgarsögusafn Reykjavíkur, Byggðasafn Vestfjarða, Skógasafn og Tækniminjasafn Austurlands.

Fyrri greinAlexis Rossi í Selfoss
Næsta greinÖruggt hjá Árborg í 1. umferð