Skógarmítlar finnast á Suðurlandi

Skógarmítill fannst bæði í Hellisskógi við Selfoss og Þrastaskógi í Grímsnesi í fyrrasumar. Mítillinn ber með sér bakteríu sem getur valdið alvarlegum veikindum.

Skógarmítill er blóðsuga á spendýrum sem heldur sig í gróðri, einkum í skógarbotnum. Þegar hann vantar blóð skríður hann upp í gróðurinn og krækir sig við blóðgjafa, sem er oftast meðalstórt eða stórt spendýr. Þannig fannst skógarmítillinn í Þrastaskógi á hundi. Það sama var uppi á teningnum þegar skógarmítill fannst á hundi í Heiðmörk við Reykjavík í síðasta mánuði.

Hjá Náttúrufræðistofnun Íslands fengust þær upplýsingar að skógamítill hefði fundist víðsvegar á landinu á undanförnum árum og er hann að öllum líkindum orðinn landlægur. Skógarmítill er varasamur því hann getur borið alvarlega sýkla í fórnarlömb sín, t.d. bakteríuna Borrelia burgdorferi, sem getur valdið alvarlegum skaða á taugakerfi. Einnig getur skógarmítill borið veirusýkingu yfir til manna. Veiran kallast TBE vírus (e. Tick born encephalitis) og getur valdið heilabólgu og sýkingu í miðtaugakerfi. Sú sýking er mun sjaldgæfari en Borrelia en mögulegt er að láta bólusetja sig gegn henni.

Borrelia getur verið alvarleg sýking með miklum og erfiðum einkennum en oftar er einungis um húðsýkingu að ræða. Mikilvægt er að fjarlægja dýrið á réttan hátt og sem fyrst. Þannig minnka líkurnar á sýkingu eða smiti verulega.

Upplýsingar um skógarmítil á vef Náttúrufræðistofnunar

Upplýsingar um Borrelia burgdorferi eða Lyme-sjúkdóminn á vef Landlæknisembættisins

Fyrri greinOddný G: Atvinnumál á Suðurlandi
Næsta greinHagkvæmara að auka starfsemi HSu