Skógarfuglar éta úr lófa

Hrafn Óskarsson og Lucile Delfosse, sem bæði vinna í starfstöð Skógræktarinnar á Tumastöðum í Fljótshlíð, hafa hænt að sér auðnutittlinga með fóðurgjöfum.

Þeir huguðustu setjast í lófa þeirra og ná sér í sólblómafræ. Kvenfuglarnir eru frakkari en karlfuglarnir.

Auðnutittlingunum hefur fjölgað á Tuma­stöðum eftir hrun sem varð í stofninum fyrir fáeinum árum, líkt og gerðist um allt land. Áður en stofninn hrundi voru um hundrað fuglar að staðaldri allan veturinn við starf­stöðina. Þeim fækkaði niður í fáeina tugi en fjölgar nú á ný.

Hrafn hefur fylgst með fuglum í áratugi og gefið þeim á vetrum. Hann segir að þegar kemur fram á vorið og minna sé orðið af fræi til að éta í skóginum verði fuglarnir ákafari á gjafabrettinu. Þeir venjist mannfólkinu smám saman.

„Svo endar með að maður prófar að rétta þeim korn í lófanum,“ segir Hrafn. Kvenfuglarnir séu mun hugaðri en karlfuglarnir. Fleiri „kerlingar“ þori að koma í lófann og næla sér í fræ en stöku „karl“ láti slag standa líka.

Nánar má lesa um fuglalífið á Tumastöðum á heimasíðu Skógræktarinnar.
Fyrri greinHárrétt viðbrögð komu í veg fyrir tjón
Næsta greinÖlkelduhlaup – Minningarhlaup