Skógar og Klaustur með 4G

4G farsímanet Símans nær nú til 90% landsmanna. Skógar undir Eyjafjöllum, Vík, Kirkjubæjarklaustur og Öndverðarnes eru nú með 4G samband.

„Við hjá Símanum stefnum á að gera betur og ná til 93,5% landsmanna í lok árs,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans.

Farsímanetið verður æ mikilvægara í nútímasamfélagi. „Við sjáum að gagnanotkunin á farsímaneti Símans eykst gríðarlega milli ára. Hún jókst um rétt tæp 75% að jafnaði milli áranna 2014 og 2015.“

Síminn tilkynnti í ágúst í fyrra ​um nýjan fimm ára samstarfssamning við Ericsson um frekari útbreiðslu og öflugra farsímanet Símans hér á landi. Í tilkynningu frá Símanum kemur einnig fram að samhliða uppsetningu 4G LTE snjallsenda verður farsímakerfið allt uppfært til að tryggja uppbyggingu netkerfis á heimsmælikvarða.