Skoðar möguleikann á hópmálsókn gegn Vegagerðinni

Torfi Ragnar Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður á Selfossi, er að skoða möguleikann á hópmálsókn á hendur Vegagerðinni vegna tjóns á bifreiðum sem skemmdust við að aka í holur í veginum yfir Hellisheiði þann 2. janúar síðastliðinn.

Torfi lenti sjálfur í því að dekk og felgur á bíl hann skemmdust. Hann sneri sér til Vegagerðarinnar vegna tjónsins en þar á bæ er allri bótaskyldu í málinu hafnað.

„Ég hef ákveðið fyrir mitt leyti að una ekki þessari ákvörðun Vegagerðarinnar enda finnst mér rökstuðningur þeirra fyrir synjun bótaskyldu vart halda vatni. Ég hef þegar sent Vegagerðinni erindi þar sem ég óska eftir frekari upplýsingum, enda ástand vegarins í heild sinni óásættanlegt eins og sakir standa,“ sagði Torfi í samtali við sunnlenska.is.

Hann býður þeim sem hafa áhuga á og lentu í tjóni þann 2. janúar að setja sig í samband við sig á torfi@log.is.

„Ég er að skoða möguleikann á því að standa í hópmálsókn á hendur Vegagerðinni til viðurkenningar á bótaskyldu vegna þessa atviks og því er mikilvægt að átta sig á heildar umfangi tjónsins. Ég tek það fram að utanumhald mitt og ráðgjöf til þeirra sem kjósa að hafa samband við mig verður þeim að kostnaðarlausu,“ segir Torfi sem lítur á það sem réttlætismál fyrir þá sem lentu í tjóni.

„Þá finnst mér mikilvægt að þrýsta á að þessum vegkafla yfir Hellisheiði verði komið í viðunandi ástand sem fyrst enda öryggi vegarins mikilvægt okkur sem hér búa,“ segir Torfi að lokum.

Dekk og felga á bíl Torfa stórskemmdist á Hellisheiði þann 2. janúar. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinHámarkshraði við einbreiðar brýr lækkaður
Næsta greinÖruggur sigur Selfyssinga – Hamar tapaði fyrir norðan