Skoða símalausan Sunnulækjarskóla

Hermann skólastjóri í ræðustól á skólaslitunum í gær. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Skólastjórnendur í Sunnulækjarskóla á Selfossi skoða nú hvort til greina komi að Sunnulækjarskóli verði símalaus skóli frá og með næsta skólaári. Þetta kom fram í ræðu Hermanns Arnar Kristjánssonar, skólastjóra, við skólaslit í gær.

„Mjög margir foreldra hafa áhyggjur af félagslegri stöðu barna sinna, en félagsfærni og samskipti barna hafa breyst mjög mikið á undanförnum árum. Margir segja að tölvuleikja- og samfélagsmiðlanotkun sé stærsta breytan sem hafi áhrif á félagsmótun og samskipti í dag. Ég get tekið undir það, upp að vissu marki og hef sem skólastjóri miklar áhyggjur af neikvæðum áhrifum tækjanotkunar á börnin okkar,“ sagði Hermann Örn í ræðu sinni.

Hermann segir að ákvörðun um þetta sé tekin af skólastjóra en hann muni óska eftir samstarfi við foreldrafélag skólans um að leggja könnun fyrir foreldra á næstu dögum um það hvort foreldrar séu á þeirri skoðun að Sunnulækjarskóli eigi að vera símalaus skóli.

„Sú ákvörðun myndi ekki hafa áhrif á upplýsingatækni í skólanum en myndi gera ríka kröfu á skólann um gott aðgengi eldri nemenda að góðum tölvukosti þar sem nám þeirra fer að stórum hluta fram í gegnum rafrænt umhverfi, sem undirbýr þá fyrir framhaldsskólann,“ bætti Hermann við.

Símalaus tímabil hafa gengið vel
Í samtali við sunnlenska.is að loknum skólaslitum sagði Hermann að í Sunnulækjarskóla hafi oft verið tekin upp símalaus tímabil hjá einstaka árgöngum og það hafi gengið vel.

„Við þurfum að auka við afþreyingu fyrir nemendur í frímínútum og byrjuðum á því í vetur með því að setja upp spilaskápa með fjölbreyttum spilum sem krakkarnir hafa aðgang að í frímínútum. Foreldrafélagið styrkti það verkefni sem hefur verið mjög vinsælt hjá stórum hópi nemenda.“

Engir símar í Kísildalnum
Hermann kom einnig inn á það í ræðu sinni að grunnskólarnir í Sílikon-dalnum fræga í Kaliforníu eru símalausir skólar.

„Það vekur athygli í ljósi þess að þar eru börn þeirra einstaklinga sem hafa lífsviðurværi sitt af því að sjá okkar börnum fyrir afþreyingu, eins og leikjum og samfélagsmiðlum í síma. Getur verið að þar á bæ viti menn um raunverulega skaðsemi þessara miðla á félagsmótun og færni barna í samskiptum? Í það minnsta vita þessir aðilar nógu mikið til að hleypa símtækjum ekki inn í skólastarfið þar,“ sagði Hermann að lokum.

Fyrri greinFlóra og fuglar við Sogið
Næsta greinMinningarorð um Árna Johnsen