Skoða möguleika á því að efla stangveiði

Netalagnir á vatnasvæði Hvítár verða settar út viku seinna en síðasta ár eða ekki fyrr en 29. júní.

Að sögn Haraldar Þórarinssonar, bónda í Laugardælum, munu þeir í Laugardælum að öllum líkindum aðeins setja út eina lögn eins og á síðasta ári en þeir hafa rétt til að setja út tvær. ,,Við viljum ekki vera að veiða fisk nema við losnum við hann,” sagði Haraldur.

Undanfarið hefur allur netafiskur sem kemur á land við Laugardæli verið mældur og vigtaður í samstarfi við sérfræðinga Veiðimálastofnunar. Að sögn Haraldar hefur þannig verið lögð áhersla á að fá sem mestar upplýsingar um fiskinn og þá um leið hvað mikið þeim fisk sem kemur í net er merktur. Samkvæmt upplýsingum Sunnlenska er um 20% fiskisins í netum sleppingafiskur.

Að sögn Haraldar hafa þeir verið að skoða möguleika á að efla stangveiði út af Laugardælalandinu og hefur verið gerð leit að heppilegum veiðisvæðum án þess þó að það hafi gengið nógu vel. ,,Við viljum auðvitað efla stangveiði, það er bæði skemmtilegra og ábatasamara ef vel gengur,” sagði Haraldur.

Fyrri greinTröppur við Seljalandsfoss
Næsta grein„Á fjalli“ í Heklusetrinu