Skoða áhrif dóms á almenningssamgöngur Strætó

Nýlegur dómur um almenningssamgöngur á Austurlandi getur mögulega haft áhrif á rekstrarforsendur strætisvagnaferða á Suðurlandi.

Í dómnum var fallist á að þeir sem aka ferðamönnum á grundvelli svokallaðra hringmiða séu ekki að brjóta gegn einkarétti sérleiðakerfis og er því heimilt að stunda fólksflutninga undir þeim formerkjum.

Þorvarður Hjaltason, framkvæmdastjóri SASS sagði í samtali við Sunnlenska að miðað við þessar forsendur geti rekstrargrundvöllur Strætó á Suðurlandi dottið niður og sveitarfélög sitji eftir með tapreksturinn. Sem stendur sé þó ekki ástæða til að óttast slíkt.

Í smíðum er frumvarp til laga sem meðal annars er ætlað að skerpa á einkaréttinum og inniheldur frumvarpið einnig úrræði fyrir Samgöngustofu, nýja stjórnsýslustofnun sem nú er yfir Vegagerðinni meðal annars, til að bregðast við brotum á umræddum einkarétti, sem Vegagerðin úthlutar.

Gunnar Þorgeirsson, formaður SASS segist hafa rætt málið við fjölda alþingismanna og innanríkisráðherra, enda sé ástæða til að hafa áhyggjur af þessu máli, sveitarfélögin hafi fjárhagslegra hagsmuna að gæta þar sem SASS hafi gert sjö ára samning um rekstur almenningsvagnaferða á Suðurlandi.

„Verði hinsvegar þessi forsendubrestur munum við ganga út úr þeim samningi,“ segir Gunnar. Hann undrast mjög afskiptaleysi ríkisvaldsins í málinu og segir kominn tíma til að marka stefnu um almenningssamgöngur.

„Það verður að skilgreina hvort þær eigi að vera til staðar og hver eigi að sjá um þær, og við þurfum að fá að vita það,“ segir Gunnar. Hann ítrekar þá afstöðu sína að núverandi fyrirkomulag strætisvagnaferða gangi vel, slíkt endurspeglist í farþegafjöldanum á þessu ári þar sem yfir 170 þúsund farþegar hafa ferðast með Strætó á Suðurlandi.

Fyrri greinMetaðsókn fanga í nám
Næsta greinSindri Pálma til Esbjerg