Skoða að kæra veitingu rannsóknarleyfis

Bæjarstjórn Hveragerðis fordæmir rannsóknarleyfi sem Orkustofnun hefur gefið út í Grænsdal til handa Sunnlenskri orku og hefur falið bæjarstjóra að kanna möguleikana á að kæra veitingu leyfisins.

„Það er afar sérstakt, ef ekki tilgangslaust, að veita rannsóknarleyfi á þessu svæði þegar óumdeildur vilji þeirra sveitarfélaga sem málið varðar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar og allra náttúruverndarsamtaka stendur til þess að Grænsdalur verði verndaður. Sú spurning hlýtur að vakna hver sé tilgangurinn með leyfisveitingunni þar sem afar ólíkegt er að framkvæmdir verði nokkru sinni heimilaðar á þessu svæði,“ segir í bókun bæjarstjórnar frá fundi hennar í gær.

„Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar hefur barist gegn öllum áformum um virkjanir í næsta nágrenni bæjarins. Sú barátta mun halda áfram þar til fallist verður á skilyrðislausa friðun þessa svæðis,“ segir ennfremur í bókuninni.

Bæjarstjórn hefur falið Aldísi Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra, að kanna möguleika bæjarfélagsins á að kæra veitingu umrædds rannsóknarleyfis.

Fyrri greinGull en samt vonbrigði
Næsta greinDagur bætti sig