Skóþjófar að Fjallabaki

Tveir þjófnaðir hafa átt sér stað á síðustu vikum í Hrafntinnuskeri þar sem vanbúnir erlendir ferðamenn hafa rænt gönguskóm annarra ferðalanga.

Í báðum tilvikum voru lélegir og nánast ónýtir strigaskór skildir eftir. Greint er frá þessu á heimasíðu FÍ.

Í öðru tilvikinu náðust skóþjófarnir þegar þeir komu niður í Álftavatn en þar var búið að láta skálaverðina vita af þjófnaðinum. Þeir voru því á verði og ráku augun í að vandaður skóbúnaður tveggja manna stakk í stúf við annars lélegan viðlegubúnað þeirra. Þegar betur var að gáð kom í ljós að skórnir voru rækilega merktir íslenskum eigendum sínum. Í hinu tilvikinu náðist ekki í skottið á þjófi sem hafði með sér gönguskó fararstjóra.

Stefán Jökull Jakobsson, yfirskálavörður Ferðafélags Íslands, segir að hingað til hafi þjófnaðir ekki þekkst á Laugaveginum og það sé afar hvimleitt til þess að vita að fólk þurfi að byrja að varast slíkt.

Ferðalangar eru misvel búnir til gönguferða á hálendi Íslands og töluvert mikið hefur verið um vanbúna göngumenn á Laugaveginum í sumar. Í ljósi þess hvað sumarveðrið hefur verið blautlegt hingað til er enn meiri ástæða til að huga vel að öllum búnaði, vera í góðum gönguskóm og með vatnsheldar flíkur í bakpokanum.

Fyrri greinErna skoraði tvö og fékk rautt
Næsta greinVeiðivötn yfir 10.000 fiska múrinn