Skoða viðbyggingu við Krakkaborg

Vinnuhópur um framkvæmdir við leikskólann Krakkaborg í Flóahreppi hefur fundað í nokkur skipti til að skoða hugmyndir um uppbyggingu leikskólans við Þingborg.

Jón Friðrik Matthíasson frá teiknistofunni M2 hefur unnið drög að grunnteikningum viðbyggingar við leikskólann og breytingartillögur á eldra húsnæði til samræmis við hugmyndir starfsfólks leikskóla um viðbyggingu og endurbætur. Sveitarstjórn hefur samþykkt að óska eftir kostnaðaráætlun vegna vinnu við deiliskipulag og fullnaðarhönnun á viðbyggingu leikskólans.

Í vinnuhópnum eiga sæti Aðalsteinn Sveinsson oddviti, Karen Viðarsdóttir leikskólastjóri, Hallfríður Aðalsteinsdóttir og Rannveig Bjarnfinnsdóttir fulltrúar starfsmanna leikskóla, Ingunn Jónsdóttir fulltrúi foreldraráðs og Elín Höskuldsdóttir fulltrúi fræðslunefndar. Halla Reynisdóttir hefur setið nokkra fundi nefndar í forföllum Elínar og Margrét Sigurðardóttir hefur verið starfsmaður nefndarinnar.

Vinnuhópurinn var settur á laggirnar í vor, í kjölfar íbúakosningar um framtíðarstaðsetningu leikskólans. 60% kjósenda vildu að leikskólinn yrði áfram í Þingborg en 37% kusu Flóaskóla.

Fyrri greinSkilti afhjúpað á Egilstorgi
Næsta greinGlæsilegt Olísmót að baki