Skoða sölu á Víkurprjóni

Kauptilboð hefur borist í allt hlutafé Víkurprjóns hf. í Vík í Mýrdal og fleiri aðilar hafa sýnt félaginu áhuga.

Þórir Kjartansson, framkvæmdstjóri Víkurprjóns, staðfesti í samtali við Sunnlenska að tilboð hefði borist og sagði hann að eigendur væru nú að fara yfir það.

Velta félagsins á síðasta ári nam 230 milljónum króna og jókst um 10% á milli ára. Afkoma félagsins var góð en Víkurprjón er skuldlítið félag að sögn Þóris.

Hluthafar Víkurprjóns eru fjórtán talsins. Stærstu hluthafar félagsins eru úr hópi stofnenda þess og eiga fjórir þeirra 13,6% hlut. Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands á 11,6% hlut og hefur hann verið til sölu um nokkurra ára skeið.

Félagið er nú 32 ára gamalt og sagði Þórir að stofnendur væru nú teknir að reskjast og því lægi beint við að selja. Félagið hefði ekki verið sett í sölumeðferð en áhugasamir aðilar hefðu spurst fyrir um það.

Hjá Víkurprjóni unnu að meðaltali 25 starfsmenn síðastliðið sumar en sautján ársverk eru hjá félaginu sem er stærsti vinnustaðurinn í Vík í Mýrdal.