Skoða að breyta nafni sveitarfélagsins

Í Þjórsárdal. Ljósmynd/Sigurður Sigmundsson

„Ég hef skynjað það í samfélaginu hér í Skeiða- og Gnúpverjahreppi í þau þrjú ár sem ég hef búið hér og starfað sem sveitarstjóri, að það virðist vera allnokkur áhugi meðal íbúanna á að breyta nafni sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn hefur metið það svo að full ástæða sé til að kanna hversu mikill sá áhugi er í reynd. Þau nöfn sem fólk nefnir oftast svo ég heyri eru nöfn sem tengjast Þjórsá eins og Þjórsárhreppur, Þjórsársveit og Þjórsárbyggð,“ segir Kristófer Tómasson, sveitarstjóri.

Sveitarstjórn hefur samþykkt að senda út könnun til allra íbúa 18 ára og eldri og spyrja hvort fólk vilji breyta nafni sveitarfélagsins.

„Ef lítill eða engin áhugi reynist fyrir nýju nafni verður núverandi nafn látið standa. Ef niðurstaðan verður hins vegar sú að meirihluti íbúa vilji sjá aðra nafngift á sveitarfélaginu þá reikna ég með að næsta skref verði hugmyndasamkeppni um nýtt nafn. Þegar hugmyndir hafa borist sé ég fyrir mér að við munum biðja íbúa um að kjósa milli þeirra nafna sem algengust verða í þeim potti,“ bætir Kristófer við.

Fyrri greinSpennandi barátta um heimaleikjarétt
Næsta greinSelfoss semur við Whatley