Skjálftinn hafði engin áhrif á virkjanir ON

Hellisheiðarvirkjun. Ljósmynd/Orka náttúrunnar

Jarðskjálftinn stóri í Þrengslunum í gær hafði engin áhrif á virkjanir á Hellisheiði eða á Hengilssvæðinu.

„Skjálftinn mældist á tæplega 8 km dýpi sem er með því allra dýpsta sem við höfum séð á þessu svæði. Mjög ólíklegt er að vinnsla ON hafi áhrif á þessu dýpi,“ segir í tilkynningu frá Orku Náttúrunnar.

Hópstjóri náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands sagði í samtali við fjölmiðla í gær að skjálftinn tengist ekki starfsemi virkjunarinnar á Hellisheiði. Um hefðbundnar jarðhræringar hafi verið að ræða.

Orkuvinnsla á Hengilssvæðinu á sér um 30 ára sögu og mikið magn jarðhitavökva er tekið upp úr jarðhitakerfinu og dælt aftur niður eftir nýtingu þess í virkjunum. Vel þekkt er að jarðhitanýting getur haft áhrif á skjálftavirkni á vinnslusvæðum og nærri þeim og reynslan á Hengilssvæðinu sýnir að stundum fylgir aukin virkni breytingum í rekstri virkjana. Orka náttúrunnar rekur net jarðskjálftamæla á vinnslusvæðunum til að fylgjast náið með skjálftavirkni.

Fyrri greinLokatölur Árborg: D-listinn með hreinan meirihluta
Næsta greinMeirihlutaviðræður hafnar í Hveragerði