Skjálfti upp á 3,8 í Grafningnum fannst vel á Suðurlandi

Jarðskjálfti sem mældist 3,8 stig varð norðan við Súlufell í Grafningi, um 3 kílómetra sunnan við Þingvallavatn, klukkan 11:56 í morgun.

Skjálftinn fannst vel víða á Suðurlandi og hefur sunnlenska.is fengið tilkynningar um að skjálftinn hafi meðal annars fundist í Hveragerði, á Selfossi, Laugarvatni og í Grímsnesinu. Hann fannst einnig vel víða á höfuðborgarsvæðinu.

Veðurstofan er að vinna að nánari greiningu á skjálftanum. Nokkrir eftirskjálftar hafa mælst.

Töluverð virkni hefur verið í Henglinum frá því í nótt en næststærstu skjálftarnir voru af stærðinni 2,8 klukkan 11:26 og 11:56 í morgun.