Um klukkan 9:15 í morgun varð skjálfti af stærðinni 3,0 í Mýrdalsjökli, engir eftirskjálftar hafa fylgt en síðustu daga hefur nokkur virkni mælst í jöklinum.
Upptök skjálftans eru austast í Kötluöskjunni.
Aukin rafleiðni mælist nú í Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi en vatnshæð hefur ekki hækkað. Tilkynningar hafa borist Veðurstofu um brennisteinslykt á svæðinu.
Fólk er beðið um að sýna aðgát við upptök árinnar og nærri árfarvegnum þar sem gasmengun gæti verið á svæðinu.
Síðast varð skjálfti af svipaðri stærð þann 19. nóvember í fyrra.