Skjálfti í Kötlu fannst á Hvolsvelli

Kötlujökull. Ljósmynd/Mats Wibe Lund

Tveir jarðskjálftar urðu kl. 7:40 í morgun, nyrst í Kötluöskjunni í Mýrdalsjökli.

Skjálftarnir voru af stærðinni 2,8 og 3,4 og urðu með 40 sekúndna millibili. Tilkynningar hafa borist um að hristingurinn hafi fundist á Hvolsvelli og á Fimmvörðuhálsi.

Jarðskjálftavirkni í Kötlu eykst á sumrin en þessi árstíðabundna skjálftavirkni er líklega afleiðing þess að meira bræðsluvatn er til staðar og jökulfargið er minna. Skjálftarnir eru grunnir og þeim fylgja fáir eftirskjálftar, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni.

Samhliða aukinni jarðskjálftavirkni hefur rafleiðni aukist í Múlakvísl undanfarna daga til marks um að jarðhitavatn kemur fram undan jöklinum. Brennisteinslykt finnst við ána og gasmælar við Láguhvola hafa sýnt aukið gasútsteymi.

Ferðamenn eru beðnir um að sýna aðgát nærri upptökum árinnar þar sem styrkur jarðhitagass getur farið yfir heilsumörk.