Skjálfti á Reykjanesi fannst vel á Suðurlandi

Frá gosstöðvunum í Geldingadölum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Jarðskjálfti af stærðinni 4,9 varð fyrir ofan Nátthaga við gosstöðvarnar á Reykjanesi kl. 9:23 í dag.

Skjálftinn fannst vel allt austur í Fljótshlíð.

Skjálftahrina hófst við Fagradalsfjall klukkan 17 í gær og hafa um þúsund jarðskjálftar mælst síðan seinnipartinn í gær. Er virknin óneitanlega farin að minna á atburðina í febrúar og mars á þessu ári í aðdraganda eldgossins í Geldingadölum.

„Meginvirknin í gær hófst rétt norðan Fagralsfjalls, en hefur síðan færst til suðvesturs í átt að gosstöðvunum í Geldingadölum. Samkvæmt Veðurstofunni gæti verið um kvikuhlaup að ræða. Kvikusöfnun hefur verið að eiga sér stað síðustu mánuði og gæti því hafa verið komið að þolmörkum í gær, þ.e.a.s. skorpan látið undan þrýstingi frá kvikunni og kvikan hlaupið að stað neðanjarðar. Ef svo er, þá hafa líkur á að eldgos hefjist að nýju aukist verulega og hefur litakóði vegna flugs verið hækkaður,“ segir í Facebookfærslu frá Eldfjalla- og náttúruvárhópi Suðurlands.

Fyrri greinLærisveinar Máté mátuðu Hrunamenn
Næsta grein„Mikið fagnaðarefni að stíga þetta skref“