Skjálftarnir fundust um allt Suðurland

Keilir. Ljósmynd/Matw Wibe Lund

Jarðskjálftarnir á Reykjanesi í morgun fundust vel um allt Suðurland. Klukkan 10:05 urðu tveir skjálftar við Litlahrút á Reykjanesi, suðvestan við Keili.

Skjálftarnir voru af stærðinni 5,7 og 5,5 og hafa margir eftirskjálftar komið í kjölfarið. Annar skjálfti af stærðinni 4,2 varð í Núpstaðahálsi kl. 10:27 og fannst hann einnig vel á Suðurlandi. Frá miðnætti hafa mælst um 500 skjálftar í hrinunni. Hefur sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofunna numið alls 11 skjálfta yfir 4,0 að stærð frá því hrinan hófst.

Stærri skjálftinn er sá stærsti sem mælst hefur síðan jarðskjálftahrinan byrjaði á Reykjanesi á síðasta ári.

Á skrifstofu sunnlenska.is í Sandvíkurhreppi sveifluðust ljós í lofti en skjálftinn var frekar „mjúkur“ og var mjög greinilegur í nokkrar sekúndur.

Sunnlenska.is hefur fengið skilaboð frá heimildarmönnum víða um landið, skjálftinn fannst að sjálfsögðu mjög vel í Þorlákshöfn en einnig allt austur á Hvolsvöll, upp í Galtalæk og í Vestmannaeyjum. Skjálftarnir fundust einnig mjög vel á Hvanneyri í Borgarfirði.

Fyrri greinÞetta þarf ekki að vera svona flókið!
Næsta greinSkora á HSU að hætta við uppsagnir ræstingafólks