Skjálftahrina í Mýrdalsjökli

Mýrdalsjökull. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson

Skjálftahrina hófst í miðjum Mýrdalsjökli um kl. 10:30 í morgun. Hrinan hófst með kröftugum skjálfta sem mældist 3,3 að stærð og síðan þá hefur verið nær samfelld smáskjálftavirkni í jöklinum.

Greint er frá þessu á Facebooksíðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands.

Lengi hefur verið þekkt að virkni í Mýrdalsjökli er háð sveiflum eftir árstíma og er haustið vanalega sá tími þar sem virknin er hvað mest. Hrinur ganga reglulega yfir í jöklinum.

Samkvæmt færslu ENSu hafa verið merki um aukna virkni í eldstöðinni undir jöklinum síðustu misseri. Stórt jökulhlaup kom undan jöklinum sumarið 2024 og ítrekuð minni hlaup hafa orðið síðan.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að engar tilkynningar hafi borist um að stærsti skjálftinn í morgun hafi fundist í byggð og engin merki eru um breytingar á leiðni í ám frá Mýrdalsjökli.

Fyrri greinMinningar úr tívolíinu lifna við með Látúnsbarkanum
Næsta greinKröftug jarðskjálftahrina að fjara út