Skírnir dúxaði á Laugarvatni – margt er líkt með skyldum

Skírnir Eiríksson dúx skólans og Jóna Katrín Hilmarsdóttir skólameistari. Ljósmynd/Aðsend

Brautskráning fór fram frá Menntaskólanum að Laugarvatni um síðustu helgi og 45 nemendur útskrifaðir, 23 af félags- og hugvísindabraut og 22 af náttúrfræðabraut.

Dúx nýstúdenta var Skírnir Eiríksson frá Gýgjarhólskoti í Biskupstungum, með einkuninna 9,03. Þess má geta að öll eldri systkini Skírnis hafa einnig dúxað við útskrift frá ML, þau Ögmundur, Jón Hjalti og Þjóðbjörg. Margt er líkt með skyldum. Skírnir hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir nám sitt við skólann og að auki raunvísindaverðlaun Háskólans í Reykjavík.

Sesselja Helgadóttir frá Selfossi var semi-dux nýstúdenta en hún hlaut meðal annars Menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir góðan árangur á stúdentsprófi og eftirtektarverð störf í félagslífi Menntaskólans. Skírnir var einnig dux scholae en semi-dux scholae var Emma Ýr Friðriksdóttir frá Höfn í Hornafirði, nemandi í fyrsta bekk Náttúruvísindabrautar.

Ár hvert veitir Styrktarsjóður Kristins Kristmundssonar og Rannveigar Pálsdóttur viðurkenningu fyrir góðan árangur á stúdentsprófi í formi fjárstyrks. Þetta árið fengu viðurkenningu þau Skírnir, Sesselja og Guðmundur Hilmar Hannesson, en Guðmundur er frá Kolbeinsá 1 í Hrútafirði. Rannveig Pálsdóttir, önnur stofnenda styrktarsjóðsins, var viðstödd útskriftina sem haldin var í Íþróttahúsinu á Laugarvatni.

Við lok athafnarinnar var fráfarandi skólameistari, Halldór Páll Halldórsson, kvaddur með gjöf frá skólanum og starfsmannafélagi skólans og boðið var til kaffisamsætis í húsakynnum Menntaskólans að athöfn lokinni og voru nýstúdentar, gestir þeirra og júbílantar boðnir velkomnir.

Skírnir, Sesselja og Guðmundur Hilmar ásamt Jónu Katrínu skólameistara og Rannveigu Pálsdóttur. Ljósmynd/ML
Nýstúdentahópurinn ásamt Jónu Katrínu skólameistara. Ljósmynd/ML

Myndir frá athöfninni má sjá hér. 

Fyrri greinÖrn með gull á Smáþjóðaleikunum
Næsta greinKorter í þjóðhátíð!