Skipulagsbreytingin send til óháðs álitsgjafa

Sveitarstjórn Rangárþings eystra samþykkti á fundi sínum í gær að fela skipulagsnefnd sveitarfélagins að fá faglegt álit á tillögu að deiliskipulagsbreytingu við Ytri Skóga.

Tillagan ásamt framkomnum athugasemdum við hana verður send Rannsóknarsetri í skipulagsfræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands sem er óháður aðili, til umfjöllunar og ráðgjafar. Þegar að niðurstöður rannsóknarsetursins liggja fyrir mun sveitarstjórn taka endanlega ákvörðun um framvindu málsins.

Mikil umræða hefur átt sér stað um deiliskipulagstillöguna síðustu vikur en Skógafoss er í landi Ytri-Skóga. Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna rann út í þessari viku og sem fyrr segir fjallaði sveitarstjórnin um málið í gær.

Í rökstuðningi með tillögu sveitarstjórnar segir að hún geri sér grein fyrir því að nauðsynlegt sé að bregðast við stórauknum ferðamannastraumi við Skógafoss. Vegur, bílastæði og fleira standist ekki tímans tönn og anni ekki þeirri umferð sem fer um svæðið.

„Óeining er um fyrirhugaðar breytingar á deiliskipulagi Ytri Skóga, í nágrenni við Skógafoss. Óeiningin byggir annars vegar á umhverfislegum rökum og hins vegar á rökum sem snúa að hugsanlegri hótel- og þjónustubyggingu sem gert er ráð fyrir í tillögunni,“ segir í bókun sveitarstjórnar sem vill að fagleg sjónarmið ráði för og að eining náist um málið.

Því verður tillagan send Rannsóknarsetri LbhÍ til skoðunar auk þess sem þar verður lagt mat á þær athugasemdir sem borist hafa vegna tillögunnar.