Skipulagið til fyrirmyndar

Hjólreiðamenn í KIA Gullhringnum í miðbæ Selfoss í fyrrasumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Liðin helgi var stór ferðahelgi hjá landsmönnum. Tjaldsvæði á Suðurlandi voru þétt skipuð og veður gott.

Mikil hátíð var á Selfossi þar sem Kótilettan hefur sig í sessi þar, en samhliða henni var opnað í nýjan miðbæ á Selfossi og þá fór fram í bænum hjólreiðakeppnin Kia Gullhringurinn þar sem hjólað var frá Selfossi og endað þar aftur eftir mis langar vegalengdir. Mikill fjöldi fólks safnaðist saman víðsvegar á Selfossi um helgina, sérstaklega í tengslum við Kótelettuna, bæði í Sigtúnsgarði og um kvöldið við Hvítahúsið utan ár.

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi segir að skemmtanir þessar hafi farið hið besta fram og skipulag allra þessara viðburða hafi verið almennt til fyrirmyndar.

Á flugvellinum við Hellu fór fram flughátíðin Allt sem flýgur og komu margir úr hópi flugáhugamanna þar saman, hinar ýmsu flugvélar og flygildi sýnd og mikil traffík, bæði á landi og í lofti. Einnig þar fóru hátíðarhöldin vel fram og án afskipta lögreglu.

Fyrri greinFyrsta tap Hamars
Næsta grein„Stoltur, auðmjúkur og gríðarlega spenntur“