Skipulag fyrir minkabú fellt úr gildi

Björgvin Skafti Bjarnason, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps segir að brugðist verði við úrskurði Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála eins fljótt og hægt er en nefndin felldi í síðustu viku úr gildi deiliskipulag fyrir stórt loðdýrabú í Ásum í Gnúpverjahreppi.

Í framhaldinu var felld úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu um að heimila byggingu hússins.

Skafti telur ekki um stórvægilegar athugasemdir að ræða en fara þurfi yfir málið þannig að alls réttlætis sé gætt. „Það er hinsvegar ekkert hægt að segja til um framhald málsins fyrr en búið er að fara yfir regluverkið,“ segir hann.

Í niðurstöðu sinni telur úrskurðarnefndin að brotið hafi verið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga, annarsvegar um rannsóknarreglu og hinsvegar um meðalhófsreglu. Var það ekki talið standast meðalhófsreglu að velja húsunum stað þar sem ætlað var. Staðsetningin hefði áhrif inn á nágrannajarðirnar Stóra-Núp og Skaftholt.

Málið olli deilum innan sveitarstjórnar á sínum tíma og þáverandi oddviti, Gunnar Örn Marteinsson greiddi einn atkvæði gegn skipulagsbreytingunni, með þeim afleiðingum að hann hætti störfum sem oddviti og situr einn í minnihluta sveitarstjórnar.

Fyrri greinEgill vann til tvennra verðlauna á mótinu
Næsta greinSyngjandi vor