Skiptir öllu að geta boðið upp á fjarnám á vinnutíma

Ingunn Jónsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í haust hefst nýtt nám hjá Háskóla Íslands í samstarfi við Háskólafélag Suðurlands sem er ætlað starfsfólki á sunnlenskum leikskólum.

Um er að ræða hagnýtt 60 ECTS starfstengt nám á háskólastigi. Námið er hugsað fyrir starfsfólk leikskóla og þumalputtareglan er að hafa starfað á leikskóla í að minnsta kosti þrjú ár og vera með sem samsvarar 100 einingar úr framhaldsskóla eða hafa klárað leikskólaliðabrú hjá framhaldsfræðsluaðilum auk náms í almennum bóklegum greinum.

„Árið 2018 hófu Háskólafélag Suðurlands/HfSu, Háskóli Íslands og sveitarfélög á Suðurlandi samstarf um skipulagningu fagháskólanáms í leikskólafræðum fyrir starfsfólk leikskóla. Það haust fór af stað hópur tíu nemenda í þetta spennandi tilraunaverkefni. Sá hópur er að ljúka núna í vor og var niðurstaða verkefnisins slík að ákveðið var að kanna hvort áhugi væri fyrir nýjan hóp að hefja nám í haust. Námið hefur að sjálfsögðu þróast og mótast yfir þessi tvö ár og meðal þess sem hefur breyst er að kúrs um leikskólafræði kemur fyrr inn í námið og utanumhald verður eflt,“ segir Ingunn Jónsdóttir, hjá Háskólafélagi Suðurlands, í samtali við sunnlenska.is.

Mikill áhugi fyrir námi sem þessu
„Fagháskólaverkefnið vakti strax eftirtekt og margir voru áhugasamir, meðal annars í öðrum landshlutum. Í vor fór af stað vinna Háskóla Íslands með Keili á Suðurnesjunum og ætlunin er að hefja kennslu þar í haust og í kjölfarið var ákveðið að athuga með áhuga Sunnlendinga á að fara af stað með annan hóp. Mikill áhugi virðist vera en skráning er til 20. júní og eftir það sjáum við hvort það næst í hóp hér á Suðurlandi,“ segir Ingunn.

Undirbúningur fyrir námið sem hófst 2018 vannst hratt. „Eins og áður sagði var þetta tveggja ára ferli jafnframt nýtt til þess að aðlaga, breyta og bæta það sem mest í góðu samtali við þá nemendur sem tóku þátt. Í dag má því búast við enn þéttara og markvissara námi sem þó mun halda áfram að þróast með góðum og áhugasömum nemendahópum.“

Ingunn segir að það að geta boðið upp á fjarnám á vinnutíma fyrir starfsfólk á leikskólum skiptir öllu máli. „Enda er oft flókið að fara í nám þegar maður býr á landsbyggðinni og er jafnvel í fullri vinnu. Eins skiptir miklu máli sá stuðningur sem nemendur fá frá sínum vinnustað og yfirmönnum, frá skólaskrifstofum á svæðunum og sveitarfélögunum sjálfum enda þurfa allir þessir þættir að koma saman ef þetta á að takast,“ segir Ingunn að lokum.

Fyrri greinYngsti nemandinn til að ljúka framhaldsprófi frá TÁ
Næsta greinSelfoss áfram í bikarnum