Skipt um perur á Ölfusárbrú

Jólaljósin í sveitarfélaginu Árborg verða tendruð síðdegis á fimmtudaginn. Félagar í Björgunarfélagi Árborgar hafa þann árlega starfa að skipta um perur í jólaseríunni á Ölfusárbrú.

Fyllsta öryggis er gætt við þetta verk en öryggislínur eru strengdar eftir brúarstrengjunum á meðan björgunarfélagsmennirnir klifra þar upp og niður. Hæsti punktur brúarinnar er í um 20 metra hæð yfir yfirborði árinnar og sögðu björgunarsveitarmennirnir ljósmyndara sunnlenska.is að það væri ansi “hressandi” að sitja uppi á hæsta punkti á meðan þungir vörubílar keyrðu yfir brúna og sveifluðu henni til en verkið væri skemmtilegt og fín æfing um leið.

Alltaf þarf að skipta um nokkra tugi af perum og endurnýja seríuna á öðrum stöðum en hún hangir uppi allan ársins hring.

Jólaljósin í Árborg verða tendruð kl. 17:30 á fimmtudaginn og verður stutt athöfn á tröppum ráðhússins af því tilefni.

Fyrri greinRabbabaraísinn besta sunnlenska afurðin
Næsta greinFara ekki í ósinn fyrr en eftir mat