Skinney-Þinganes kaupir Auðbjörgu

Samkomulag hefur verið gert um kaup Skinneyjar-Þinganess hf. á Höfn í Hornafirði á öllum hlutabréfum í Auðbjörgu hf. í Þorlákshöfn.

Samkomulagið er með fyrirvörum m.a. um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Eftir kaupin, ef af þeim verður, mun Skinney-Þinganes hf. verða með starfsemi á Höfn og í Þorlákshöfn.

Í sameiginlegri tilkynningu frá félögunum segir að með þessu hyggist Skinney-Þinganes hf. styrkja sig í sessi sem eitt öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og treysta enn frekar fjölbreyttan rekstur í útgerð, fiskvinnslu og sölu sem byggst hefur upp á undanförnum árum.

Auðbjörg hefur frá stofnun árið 1970, verið með starfsemi í Þorlákshöfn. Fyrirtækið hefur undanfarin um tuttugu og fimm ár keypt skip og aflaheimildir til að styrkja rekstur fyrirtækisins.

Þrátt fyrir kaup veiðiheimilda hefur fyrirtækinu ekki tekist að halda í við skerðingu á þeim veiðiheimildum er fyrirtækið ræður yfir. Það er mat eigenda að rétt sé og tímabært að koma fyrirtækinu í hendur traustra aðila sem hafa það að markmiði að halda áfram starfsemi fyrirtækisins í Þorlákshöfn.

Fyrri grein„Þetta var okkar leikur“
Næsta greinÆgir og KFR áfram í fallhættu