Skimunin í Sunnulækjarskóla gríðarlega stórt verkefni

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Næstkomandi fimmtudag munu 550 nemendur og 50 starfsmenn Sunnulækjarskóla á Selfossi fara í skimun vegna COVID-19 en hópurinn var settur í sóttkví síðastliðinn laugardag, eftir að hafa verið útsettur fyrir smiti í skólanum þann 1. október síðastliðinn.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi sér um skimunina og þar sem um mikinn fjölda sýna er að ræða mun Sveitarfélagið Árborg leggja til aðstöðu í íþróttahúsi Sunnulækjarskóla fyrir skimunina.

Skimunin í Sunnulækjarskóla hefst kl. 8:30 og er reiknað með að hún standi yfir allan daginn, til kl. 16. Foreldrar barna í Sunnulækjarskóla eru beðnir um að hringja ekki í heilsugæsluna á Selfossi til þess að fá upplýsingar um skimunina, þar sem mikið álag er á stofnuninni. Upplýsingar um sýnatökuna verða sendar foreldrum í tölvupósti.

Þeir sem fá neikvæða niðurstöðu úr skimuninni verða lausir úr sóttkví þegar niðurstaða liggur fyrir.

Á upplýsingafundi Almannavarna í dag voru Þórólfur Guðnason og Víðir Reynisson spurðir hvort hafi komið til greina að taka úrtak í skólum til að sjá hlutfall smitaðra hjá nemendum og starfsmönnum á höfuðborgarsvæðinu og vísaði Víðir þar í skimunina sem er framundan á Selfossi.

„Það verður áhugavert að sjá hvað kemur út úr þeirri skimun sem er nú í undirbúningi á Selfossi. Það er gríðarlega stórt verkefni og reynir mikið á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í þeim efnum,“ sagði Víðir.

Fyrri greinÁheitaganga til styrktar Sjóðnum góða
Næsta greinHamar/Þór kreisti fram sigur á lokamínútunni