Skiltaskógur í óleyfi við þjóðveginn

Kvartanir og fyrirspurnir hafa borist til Sveitarfélagsins Árborgar vegna fjölda auglýsingaskilta við gatnamót Suðurlandsvegar og Biskupstungnabrautar.

Við þessi fjölförnu gatnamót hafa ýmis fyrirtæki og félagasamtök sett upp skilti til lengri eða skemmri tíma. Flest eru skiltin í formi nk. auglýsingavagna.

Gísli Davíð Sævarsson, aðstoðarbyggingarfulltrúi Árborgar, sagði í samtali við sunnlenska.is að þrátt fyrir að þarna séu menn að leggja farartækjum þá séu þau samt skilgreind sem „skilti” eða auglýsing og séu því leyfisskyld. Óheimilt er að setja upp hvers konar skilti og auglýsingar í Sveitarfélaginu Árborg nema að fengnu leyfi byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar.

„Þetta svæði sem menn hafa verið að leggja skiltunum á er í eigu sveitarfélagsins og enginn þessara aðila er með leyfi fyrir að staðsetja sig þarna,“ segir Gísli. „Við höfum fengið bæði kvartanir og fyrirspurnir um hvort það ætti ekki að fjarlægja þetta allt, og það er í skoðun hjá okkur hvernig á að taka á þessu og hvenær,“ segir Gísli ennfremur og vonar að það leysist sem fyrst.

Verið er að vinna að breytingum á reglugerð um skilti í Árborg og þar til þeirri vinnu er lokið gilda eldri reglur sem finna má á heimasíðu Árborgar.