„Skilaboðin skýr hjá íbúum”

„Mér finnst þetta jákvætt skref,” segir Agnar Bent Brynjólfsson, kaupmaður á Borg í Grímsnesi, en hann hefur verið boðaður á fund með Vegagerðinni og sveitaryfirvöldum til að ræða breytingu á aðkomu að Versluninni Borg í kjölfar þess að hringtorg var sett á Biskupstungnabraut við Borg.

Agnar hefur síðan glímt við áhrif þess að aðkomunni að búðinni var breytt en ekki er lengur hægt að komast beint að versluninni af báðum akgreinum Biskupstungnabrautar og telur Agnar það hafa orsakað verulegan samdrátt í verslun.

„Ég finn fyrir jákvæðu viðhorfi íbúanna í sveitinni og annarra sem hér koma við gagnvart athugasemdum mínum,” segir Agnar sem vill einfalda aðkomuna að versluninni svo hægara verði fyrir viðskiptavini að komast til og frá henni. Hann segir skilaboðin frá íbúum hafa skilað sér til sveitarstjórnar.

Þetta er auðvitað ófremdar ástand, og sem dæmi var hér flutningabíll sem hugðist koma hér inn á planið en gat það ekki nema aka framhjá og bakka inn aðreinina,” segir Agnar og telur hann slíkt ekki ganga til lengdar, enda augljós slysahætta sem skapist vegna þessa.

Fyrri greinFluttur á slysadeild eftir bílveltu
Næsta greinNiðurgreiðslan hækkuð um 600 krónur