Skeytið kannski ætlað honum

„Ég labba nánast á hverjum morgni um fjöruna en það var tilviljun að ég skyldi finna hana,” segir Elfar Guðni Þórðarson, listamaður á Stokkseyri sem fann flöskuskeyti í Stokkseyrarfjöru fyrir skömmu.

„Flaskan var nokkuð hátt í varnargarðinum og hefur því farið þangað á flóði og er sjálfsagt búin að vera í fjörunni í nokkurn tíma,” segir Elfar í samtali við Sunnlenska. Flaskan er venjuleg plastflaska en búið var að innsigla hana.

Þegar hún var opnuð reyndist um að ræða skeyti sem að því er virðist er sent í „fjölpósti“ því skeytið sem Elfar rambaði á er númer 6893. Sendandinn er maður frá Lemvig á vestur Jótlandi og sendi hann það þann 24. október 2009. Skeytið hefur því farið nokkuð langa leið yfir Atlantshafið.

„Það er beiðni um að láta vita ef flöskuskeytið finnst, og við höfum sent póst á netfangið en ekki fengið neitt svar,” segir Elfar. Í bréfinu er sagt að mestar líkur séu á að það finnist í Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi.

Svo vill til að Elfar var á Jótlandi fyrir um tveimur árum ekki langt frá þeim stað sem flöskuskeytið var sent. Hann vill þó ekki fullyrða um að sendingin hafi verið ætluð honum sérstaklega þótt ýmsir hafi verið fljótir til að álykta á þann hátt. „Ég var þarna í fríi skammt frá með fjölskyldunni og Forsetinn (Björn Ingi Bjarnason, forseti Hrútavina) var fljótur að leiða líkum að því að skeytið tengdist þeirri ferð minni,” segir Elfar og glottir. „Það er svosem eins góð saga og hver önnur.“