Skemmukönguló skaut mönnum skelk í bringu

Köngulóin káta skaust í burtu að myndatöku lokinni. Ljósmynd/Aðsend

Vöskum köppum sem unnu að þrifum í gömlu Húsasmiðjunni á Selfossi brá heldur betur í brún þegar þeir rákust á stærðarinnar könguló, sem reyndist einir 8 sentimetrar í þvermál.

Sunnlenska.is hafði samband við Erling Ólafsson, fyrrverandi skordýrafræðing á Náttúrufræðistofnun, og taldi hann líklegast að þarna væri um skemmukönguló að ræða. Þrátt fyrir að vera tiltölulega nýlegur landnemi hér á landi hefur hún fundist reglulega síðustu áratugi og nú komin með fasta búsetu hér.

Skemmukönguló er risastór á íslenskan mælikvarða, ein af þeim stærstu sem hér finnst, lappalöng og getur fullvaxið karldýr orðið um 16 sentimetrar í þvermál. Þrátt fyrir að vera frekar ófrýnileg er hún hins vegar sauðmeinlaus.

Köngulær af þessari tegund fundist víða á Suðurlandi en þær þrífast eingöngu innanhúss og er helst að finna í vörugeymslum og á vörulagerum í tengslum við innflutning og atvinnustarfsemi. Tegundin hefur þó fundist í nokkrum mæli utan við gróðurhús í Hveragerði.

Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands segir að skemmuköngulóin sé mjög viðbragðsfljót en vefur hennar er ekki límborinn heldur gerir hún áhlaup ef bráð þvælist inn á vefinn. Sú var líka raunin með köngulóna í gömlu Húsasmiðjunni, hún skaust í burtu og var fljót að láta sig hverfa að myndatöku lokinni.

Fyrri greinHildur, Helga, Knútur og Reynir Pétur sæmd fálkaorðu
Næsta greinSkartgripaþjófur braust inn í tvö hús á Selfossi