Skemmtilegur og krefjandi folfvöllur á Selfossi

Búið er að setja upp níu holu frisbígolfvöll á Selfossi, á útivistarsvæðinu við Gesthús og Selfossvöll. Völlurinn er öllum opinn og tilbúinn til spilunar en verður opnaður formlega seinna í sumar.

Selfyssingurinn Bjarki Þór Guðmundsson hefur stundað frisbígolf, eða folf eins og það er kallað, undanfarin sumur. Hann segir nýja völlinn á Selfossi nokkuð krefjandi, en skemmtilegan.

„Það er gaman að fá völl á Selfoss, ég hef verið að fara til Reykjavíkur og á Flúðir til þess að spila undanfarin tvö, þrjú sumur. Ég er búinn að fara tvo hringi hérna á nýja vellinum á Selfossi og hann er mjög skemmtilegur,“ segir Bjarki. Á Suðurlandi eru m.a. einnig folfvellir í Miðhúsaskógi og á Úlfljótsvatni, en þar er elsti völlur landsins, 15 ára gamall.

Bjarki Þór segir nokkuð marga stunda frisbígolf reglulega. Íþróttin er spiluð eftir svipuðum reglum og golf þar sem takmarkið er að kasta diskinum í körfuna í sem fæstum skotum.

„Það er hægt að spila þetta með venjulegum frisbídisk en allir sem stunda þetta af alvöru eru með sérstaka diska. Það þarf þrjá diska í þetta; driver, mid-range disk og pútter. Það er hægt að kaupa þessa diska saman í pakka og það kostar alls ekki svo mikið að koma sér af stað. Það er um að gera fyrir fólk að prófa,“ segir Bjarki Þór.

Fleiri frisbígolfvellir eru væntanlegir í sveitarfélaginu en unnið er að gerð valla á Eyrarbakka og Stokkseyri sem og lítils vallar á svokölluðum „Heiðarvegsróló“ sem er leiksvæðið við Heiðarveg og Kirkjuveg á Selfossi.


Kort af nýja vellinum á Selfossi. Fyrsta braut er við gamla brennustæðið á Gesthúsasvæðinu.

Fyrri greinFyrsta fyrirtækið í uppsveitunum til að fá viðurkenningu Vakans
Næsta greinHægt að skila inn umsókn um leið og kennitala hefur verið stofnuð