Skemmtilegur þrautaleikur á sumardaginn fyrsta

FAGNIÐ er stórskemmtilegur þrautaleikur fyrir alla fjölskylduna sem hægt er að leysa hvar og hvenær sem er á sumardaginn fyrsta.

Leikurinn er unnin af hópi MPM-nema Háskóla Reykjavíkur í samstarfi við Skátana, Securitas og fjölda annarra fyrirtækja sem hafa stutt við verkefnið.

Í leiknum eru þrjátíu þrautir og getur fjölskyldan leyst eins margar þrautir og hana langar til. Síðan þarf að deila mynd eða myndbandi af fjölskyldunni að leysa þrautina á Instagram með myllumerkinu #fagniðsumri. Því fleiri myndir/myndbönd því meiri líkur á vinningi. Einnig er hægt að deila myndum á Facebooksíðu Fagnsins.

Upplýsingar um þrautirnar og glæsilega vinninga sem eru í boði má sjá hér.

FAGNIÐ er raunhæft verkefni meistaranema MPM námsins við Háskólann í Reykjavík. Markmið FAGNSINS er að leiða saman fjölskyldur landsins í gleði og leik og um leið vekja athygli á mikilvægi samverustunda fjölskyldunnar.

Að baki FAGNINU stendur þverfaglegur nemendahópur sem fékk það hlutverk, undir haldleiðslu Dr. Helga Þórs Ingasonar, að skipuleggja raunhæft verkefni sem hefur jákvæð áhrif á samfélagið á einhvern hátt. Meðlimir hópsins eru: Ásta Lára Jónsdóttir, Börkur Brynjarsson, Íris Anna Groeneweg, Kristrún Anna Konráðsdóttir og Sigríður Ósk Fanndal.

Hugmyndin að verkefninu var þróuð í samstarfi við Skátana sem trúa því að besta gjöf foreldra til barna sé samvera. Fjölskyldufyrirtækið Securitas studdi einnig við verkefnið og gerði FAGNINU kleift að ná til sem flestra landsmanna. Fjöldi fyrirtækja hefur lagt verkefninu lið með því að gefa glæsilega vinninga til þátttakenda. Því má segja að FAGNIÐ sé sumargjöf MPM-hópsins, Skátanna og Securitas til þjóðarinnar.

Fyrri greinHvolsskóli keppir í úrslitum Skólahreysti
Næsta greinStríðsárin í Laugabúð