Skemmtilegar og leiðinlegar bækur í endurnýtingartunnu

Nú er hægt að skila bókum í sérmerkt ílát á gámasvæði Árborgar og við Sunnlenska bókakaffið á Austurvegi 22 á Selfossi.

Í tunnur þessar má setja allar heilar bækur og kiljur, hvort sem þær eru leiðinlegar eða skemmtilegar. Landakort og skjöl hverskonar eru einnig velkomin. Skjöl sem skilað er á gámasvæði þurfa að vera í kössum eða möppum og þá merkt með nafni og símanúmeri þess sem skilar. Skjölin verða síðan afhent Héraðsskjalasafni Árnesinga til varðveislu. Þá er hægt að hafa samband við Héraðsskjalasafn Árnesinga og fá ráðgjöf vegna skila og varðveislu skjala í síma 482-1259.

Bækurnar verða í framhaldinu flokkaðar og hluti þeirra fer aftur í notkun gegnum www.bokakaffid.is eða fornbókaverslun Bókakaffisins. Þær bækur sem ólíklegt er talið að verði lesnar meir verða sendar í endurvinnslu og koma svo aftur sem stílabækur og þerriklútar. Þá verða skjöl sem teljast hafa varðveislugildi vistuð á Héraðsskjalasafni Árnesinga.

Í fréttatilkynningu segir að endurnotkun bóka sé umhverfisvæn leið sem bætir en frekar nýtingu þeirra auðlinda eins og pappírs og orku sem við notum á hverjum tíma. Endurvinnsla bóka er einnig umhverfislega rétt leið til að endurheimta hráefni og minnka efnanotkun og orku. Flokkun á bókum til endurnotkunar getur verið skemmtileg leið til að koma gleymdum menningarverðmætum í nýjar hendur.

Til að byrja með verður tekið við bókum á Gámasvæði Árborgar og við Bókakaffið á Austurvegi 22. Á næstu vikum má búast við að hægt verði að skila bókum á fleiri mönnuðum gámasvæðum á Suðurlandi, nánar um það síðar á www.sorpstodsudurlands.is