Skemmdirnar virðast bundnar við þakið

Orkuvinnsla í Hellisheiðarvirkjun er komin í eðlilegt horf og viðgerðir á stöðvarhúsinu eru hafnar. Lögreglan á Suðurlandi rannsakar upptök eldsins.

Brunavarnir Árnessýslu stóðu vakt í nótt án þess að til tíðinda drægi.

Um klukkan ellefu í gærkvöldi, tæpum hálfum sólarhring eftir að eldur kom upp, var háþrýstivél gangsett en henni hafði slegið út um það leyti að eldsins varð vart. Lágþrýstivél og varmastöð, sem slökkt var á í öryggisskyni meðan á slökkvistarfi stóð, voru gangsettar um ellefuleytið í morgun, tæpum sólarhring eftir atburðinn. Hann hafði því ekki áhrif á orkuafhendingu til almennings, hvorki á rafmagni né heitu vatni.

Viðgerðir á húsinu voru undirbúnar í gærkvöldi og hófust í morgun. Tækjabúnaður virðist hafa sloppið við skemmdir og virðast þær bundnar við þak og rýmið undir því þar sem eldurinn kom upp.

Jarðhitasýning Orku náttúrunnar í virkjuninni verður lokuð fram í næstu viku, að minnsta kosti. Hún er fjölsótt, einkum af útlendum ferðahópum. Starfsfólk Orku náttúrunnar upplýsti ferðaþjónustufyrirtæki um stöðuna í gær og mun gera það áfram eftir því sem viðgerðum vindur fram.

Fyrri greinÞrengslavegi lokað vegna umferðaróhapps – Búið að opna
Næsta greinMarín Laufey glímukona ársins