Skemmdir unnar á bílum

Í morgun barst lögreglunni á Selfossi tilkynning um skemmdir á tveimur bifreiðum við Mánamörk í Hveragerði.

Rúður voru brotnar til að komast inn í bifreiðarnar sem voru læstar. Talið er að farið hafi verið inn í aðra bifreiðina í fyrrakvöld og í hina í gærkvöldi eða í nótt. Einnig var farið inn í sendibifreið sem var ólæst.

Engu mun hafa verið stolið en engu líkara en að gerendur hafi verið að svipast um eftir klinki. Af ummerkjum að dæma gætu þarna hafa verið börn eða óþroskaðir unglingar á ferð.

Ef einhver getur veitt upplýsingar um málið er hann beðinn að hafa samband við lögreglu í síma 480 1010.