Skemmdarvargar skrúfuðu frá brunaslöngu

Um klukkan 19:00 síðastliðinn laugardag tók starfsfólk á Hótel Selfoss eftir vatnsleka í eldri hluta hótelsins. Í ljós kom að skrúfað hafði verið frá brunaslöngu á þriðju hæð hótelsins.

Vatn lak niður á allar hæðir fyrir neðan alveg niður í kjallara. Nokkuð tjón hlaust af þessum vatnsleka þar sem vatnið lék um teppi á gangi og parketi á þremur herbergjum.

Talið er að skrúfað hafi verið frá brunaslöngunni á tímabilinu frá hádegi og fram eftir degi.

Lögregla hefur þegar fengið upplýsingar um að sést hafi til tveggja drengja á aldrinum 12 til 14 ára í gamla hótel hlutanum um klukkan 13 þennan dag.

Lögreglan biður alla þá sem geta veitt upplýsingar um hverjir hafi verið þarna að verki að hafa samband við lögreglu í síma 480 1010.

Fyrri greinFrábær byrjun í Brúará
Næsta greinÍbúðalánasjóður auglýsir til leigu