Skeiðamaður bjó til besta kaffið

Jan-Fredrik Winter, frá Borgarkoti á Skeiðum, tryggði sér um helgina Íslandsmeistaratitilinn í kaffigerð 2012.

Þetta er í fyrsta sinn sem Íslandsmótið er haldið og kepptu átta kaffibarþjónar í kaffigerð (Brewers Cup) í húsakynnum Kaffismiðju Íslands í Reykjavík.

Keppnin fer fram í tveimur umferðum. Í þeirri fyrri voru dómarar bakvið luktar dyr og dæmdu bollana fyrst og fremst útfrá bragði en allir keppendur notuðu sama kaffið.

Í seinni umferðinni var bætt við þjónustuhluta þar sem keppendurnir útskýrðu aðferðir sínar og hvaða eiginleika uppáhellingaraðferð þeirra dró fram í kaffinu.

Keppnin var mjög jöfn á faglegan máta og greinilegt að keppendur höfðu spáð mikið í hvað gerist í uppáhellingu á kaffi. Jan-Fredrik, sem vinnur á Íslensku kaffistofunni í Turninum á Höfðatorgi, sigraði í keppninni með 465,35 stig en önnur varð Vala Stefánsdóttir á Te og kaffi með 451,21 stig.

Heimasíða Kaffibarþjónafélags Íslands