Skátarnir og Skógræktin kaupa Úlfljótsvatn

Skógræktarfélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta og Skátasamband Reykjavíkur hafa fest kaup á jörðinni Úlfljótsvatni í Grafningi. Seljandinn er Orkuveita Reykjavíkur.

Jörðina keypti Reykjavíkurbær árið 1929 á 98 þúsund krónur vegna fyrirhugaðrar virkjunar í Soginu en jörðin fluttist yfir til Orkuveitunnar við stofnun hennar enda einnig jarðhiti þar.

Skátar hafa haft meirihluta jarðarinnar á leigu og rekið þar skátamiðstöð í um 70 ár. Auk þess hefur verið stunduð þar skógrækt og á henni standa orlofshús starfsmannafélaga tengdum Reykjavíkurborg. Kaupverð er 200 milljónir króna en undanskilin sölunni eru jarðhitinn, tæplega 60 hektara spilda nyrst á jörðinni auk réttinda sem tengd eru orlofshúsum. Þannig verður réttindum Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar haldið til haga. Kaupendur munu taka við rekstri og umsjón Bernsku- og Skólaskóga sem ræktaðir hafa verið um árabil í samstarfi Orkuveitunnar og skógræktarfélaga. Skógræktarfélag Íslands hefur allt frá stofnun félagsins árið 1930 unnið ötullega að skógrækt og fræðslu um mikilvægi skógræktar fyrir íslenskt samfélag.

Innan vébanda Skógræktarfélags Íslands er 61 félag með um 8 þúsund félagsmenn. Með tilkomu eignarhalds á Úlfljótsvatni er stefnt að aukinni skógrækt og fjölbreyttum möguleikum til útivistar fyrir almenning, sem og auknu samstarfi Skógræktarfélags Íslands og Bandalags íslenskra skáta.

Árið 2007 var endurnýjaður leigusamningur á milli OR og skátahreyfingarinnar til 75 ára um áframhaldandi afnot skáta af Úlfljótsvatni. Þar eru nú rekin útilífsmiðstöð, skólabúðir, sumarbúðir fyrir börn, fræðslusetur, skógræktarstarf og þjálfunarbúðir fyrir skáta og björgunarsveitir. Auk þess er Úlfljótsvatn orðið eitt fjölsóttasta tjaldsvæði landsins þar sem áhersla er lögð á þjónustu við barnafjölskyldur. Í ljósi margvíslegra kvaða sem á jörðinni hvíla var hún ekki talin á meðal þeirra eigna, sem Orkuveitan ætti möguleika á að selja samkvæmt þeirri aðgerðaáætlun sem nú er unnið eftir í rekstri fyrirtækisins. Eftir að Skógræktarfélag Íslands og fulltrúar skátahreyfingarinnar lýstu áhuga á að eignast jörðina var gengið til viðræðna við fulltrúa samtakanna og var tilboð þeirra samþykkt á fundi stjórnar Orkuveitunnar 18. nóvember síðastliðinn. Í ljósi sögunnar þótti rétt að bera söluna undir borgaryfirvöld og samþykkti borgarráð söluna fyrir sitt leyti 1. desember síðastliðinn.