Lauren Edie Walton, eigandi Endurlífga Jewellery sem búsett er á Selfossi, mun taka þátt í sinni fyrstu tískusýningu á Erlendur Iceland Fashion Week, sem fer fram í Reykjavík 3. til 7. september næstkomandi.
Á sýningunni mun Lauren kynna sína fyrstu skartgripalínu fyrir tískupall, Future Relics, sem sameinar innblástur úr fornri skartgripagerð með nútímaefnum, meðal annars úr endurskinsmerkjum, bílalakki og keilukúlum. Með því að endurskilgreina hvað framtíðar kynslóðir kunna að telja dýrmætt skapar Lauren áhrifamikil og djörf verk, sem ögra hefðbundnum hugmyndum um skraut og skart.

„Með Future Relics vil ég breyta því hvernig við sjáum það sem er dýrmætt. Í þessari línu vildi ég kanna hvernig efni okkar tíma gætu lifað áfram, hvað við förum framhjá, hvað við metum, og hvernig þau geta sagt nýjar sögur fyrir framtíðar kynslóðir,“ segir Lauren.
Sem fyrr segir býr Lauren nú á Selfossi og þar er hún einnig með vinnustofu en hún hlaut menntun sína í skartgripahverfinu sögufræga í Birmingham á Englandi. Lauren segist vonast til að frumraunin á Erlendur Fashion Week verði upphafið að alþjóðlegri vegferð fyrir sig og aðra skapandi einstaklinga á Íslandi.

Erlendur Fashion Week er nú í annað skiptið haldið og er vettvangur fyrir hönnuði á Íslandi til að sýna verk sín á tískupalli. Tískusýningar vikunnar verða haldnar í Hvalasafninu á Fiskislóð 5. og 6. september en aðrir viðburðir verða á veitingastaðnum Port9 við Veghúsastíg.

