Skarphéðinn ráðinn söngstjóri á Selfossi

Karlakór Selfoss hefur ráðið nýjan söngstjóra til kórsins og er það Skarphéðinn Þór Hjartarsson, tónmenntakennari í Kópavogi.

Skarphéðinn Þór Hjartarson er fæddur og uppalinn í Kópavogi. Hann lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1987 og hefur starfað við tónmenntakennslu síðan.

Hann stundaði söngnám hjá Halldóri Vilhelmssyni, Sieglinde Kahmann og Jóni Þorsteinssyni.

Skarphéðinn hefur sungið með mörgum kórum og sönghópum m.a: Rúdolf, MK kvartettinum, Schola Cantorum, kammerkórnum Carminu, karlakórnum Voces Masculorum og Kór Íslensku óperunnar. Hann hefur sungið í mörgum uppfærslum Íslensku óperunnar bæði í kór og einsöngvari.

Skarphéðinn hefur einnig verið afkastamikill útsetjari og útsett mikið af tónlist fyrir blandaða kóra og smærri hópa.

Fyrri greinÞrír alvarlega slasaðir – Búið að opna Suðurlandsveg
Næsta greinSkrifað undir þjóðarsáttmála um læsi