Skandia strandaði í Landeyjahöfn

Dæluskipið Skandia strandaði í Landeyjahöfn í gær. Lóðsinn frá Vestmannaeyjum losaði skipið og hófst dæling úr höfninni aftur í morgun.

Að sögn Guðjóns Egilssonar hjá Íslenska gámafélaginu fékk skipið á sig brot í hafnarmynninu og rak upp í sand inni í höfninni og festist. Ekki varð tjón á skipinu og Lóðsinn var fenginn til að draga það aftur á flot. Í fyrstu tilraun slitnaði taugin á milli Skandia og Lóðsins og flæktist í skrúfunni á dæluskipinu.

Skandia lá við bryggju í Landeyjahöfn á meðan losað var úr skrúfunni.

Ölduhæð við höfnina er nú 1,9 metrar og hefur dæling gengið vel í dag að sögn Guðjóns. Lóðsinn var fenginn til að mæla dýpið í höfninni í morgun og Siglingastofnun mun í kjölfarið gefa út nýja spá um hvenær Herjólfur getur hafið siglingar þangað aftur.

Fyrri greinRúðubrjótur í annarlegu ástandi
Næsta greinNefbrotinn á djamminu