Skandia hætt að dæla í dag

Ekki mun takast að opna Landeyjarhöfn fyrir helgi. Sanddæluskipið Skandia vann við dýpkun hafnarinnar fram yfir hádegi í dag en hætti þá vegna vaxandi ölduhæðar.

„Við leggjum alla áherslu á að opna höfnina svo að það sé hægt að nýta þessa góðu samgöngubót, en við ráðum ekki við veðrið,“ sagði Guðjón Egilsson, hjá Íslenska gámafélaginu, í samtali við mbl.is.

Skipið dældi upp u.þ.b. 750 rúmmetrum í dag og svipuðu magni í gær. Skandia getur ekki unnið ef ölduhæð er yfir 2 metrum en öldu hæð hefur verið um og yfir 2 metrar síðustu tvo daga.

Siglingastofnun spáir meiri ölduhæð um helgina og því er óvíst hvort eitthvað verður unnið við dýpkun hafnarinnar um helgina.

Fyrri greinEnsími í Hvíta í kvöld
Næsta greinHvítahúsið og Stuðlabandið berjast við verðbólgudrauginn