Skáluðu í repjuolíu

Félag kúabænda boðaði til fundar í dag hjá MS Selfossi þar sem kynning á repjurækt til olíuvinnslu fór fram.

Ólafur Eggertsson á Þorvaldseyri flutti fræðsluerindi en hann hefur náð góðum tökum á ræktuninni og unnið olíu úr framleiðslunni, sem hann er byrjaður að nota á dráttarvélar á bænum. Áður en fundurinn hófst skáluðu menn í repjuolíu og fengu sér sopa enda bráðholl afurð.

„Okkur vantar eldsneyti á vélarnar og fóður fyrir bústofninn og þetta er akkúrat sú afurð sem verður til og smellpassar inn í okkar framleiðslu,“ segir Ólafur.

Formaður Félags kúabænda á Suðurlandi segir mikinn áhuga hjá bændum fyrir ræktuninni. „Okkur finnst þetta spennandi, og sérstaklega af því þetta er framleiðsla sem hægt er að nota að hluta til sem fóður og til dísel framleiðslu, þannig að það er margt sem vekur áhuga á þessu, og eins líka að fylgjast með framvindunni, hvernig mönnum tekst til að koma þessu áfram, sem þegar eru byrjaðir,“ segir Þórir Jónsson, formaður Félags kúabænda á Suðurlandi.

RÚV greindi frá þessu