Skálholtsbókhlaða endurreist

Lilja Dögg Alfreðsdóttir Menningarmálaráðherra og Árni Gunnarsson formaður Verndarssjóðs Skálholtsdómkirkju undirrita samninginn í kjallara Gestastofunnar sem hýsa mun Bókhlöðu Skálholts. Ljósmynd: Stjórnarráðið/MFV

Í síðustu viku undirritaði Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, styrktarsamning við Verndarsjóð Skálholtskirkju. Styrkurinn er til að stuðla að endurreisn Skálholtsbókhlöðu þar sem dýrmætu bókasafni Skálholts verður komið fyrir ásamt lesaðstöðu og rými til sýninga og miðlunar. Í nýrri bókhlöðu verður m.a. sérhæfð geymsla til varðveislu elstu bókanna, sýningarrými og lesaðstaða fyrir gesti.

Í Skálholtskirkju er að finna fágætt bókasafn sem er að stofni til gjöf frá Þorsteini Þorsteinssyni, sýslumanni Dalamanna. Dýrmætasti hluti bókakostsins eru bækur sem prentaðar voru á Hólum og í Skálholti á 16., 17. og 18. öld. Hingað til hefur safnið ekki verið til sýnis en með verkefninu skapast rými til að hafa safnkostinn aðgengilegan og til sýnis reglulega. Virti ráðherra meðal annars fyrir sér eintök af Landnámu og Guðbrandsbiblíu sem eru varðveitt í Skálholti.

„Framlag Íslands til heimsbókmenntanna er umfangsmikið og hefur fylgt þjóðinni um margar aldir. Dæmi þess má sjá hér í Skálholti þar sem mikilvægar bókmenntir eru varðveittar. Það skiptir máli að hlúa að þessum menningararfi okkar og auka aðgengi að honum til að miðla til komandi kynslóða,“ sagði Lilja við þetta tilefni.

Fyrri greinÁlfrún Diljá í hópi framúrskarandi námsmanna
Næsta greinÞriðja tap Selfoss í röð