Skáldastofa til heiðurs Ólafi og Tómasi

Hugmynd um skáldastofu að Borg í Grímsnesi er á frumstigi en möguleikar á verkefninu voru ræddir á hátíðinni Brú til Borgar á dögunum.

Stofan yrði menningarsetur til minningar um Ólaf Jóhann Sigurðsson, rithöfund frá Torfastöðum í Grafningi og Tómas Guðmundsson, ljóðskáld frá Efri-Brú í Grímsnesi.

„Við erum að endurskoða deiliskipulag á Borgarsvæðinu og það væri mögulegt að byggja þar skáldastofu þar sem þessum höfðingjum yrði tryggður veglegur sess í samfélaginu,“ sagði Gunnar Þorgeirsson, oddviti, í samtali við Sunnlenska og bætir við að hugmyndin sé að mörgu leiti sambærileg Þórbergssetrinu á Hala í Suðursveit, sem þykir vel heppnað framtak.

Málið er á algjörum byrjunarreit en Gunnar reiknar með að hugmyndavinnan fari í gang með haustinu.