Skaftholt og Sólheimar hljóta tilnefningu

Skaftholt í Gnúpverjahreppi og Sólheimar í Grímsnesi eru tilnefnd til náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs fyrir árið 2014.

Verðlaunin eru veitt sveitarfélagi, borg eða staðbundnu samfélagi sem annað hvort hefur í starfsemi sinni lagt mikið af mörkum til umhverfisverndar eða lagt sig fram á einhverju ákveðnu sviði umhverfismála.

Þrettán aðilar eru tilnefndir, þar af fjórir frá Íslandi, en auk Skaftholts og Sólheima eru það Reykjavíkurborg og fimm sveitarfélög í samstarfi á Snæfellsnesi.

„Þetta er heiður og viðurkenning á löngu starfi að sama markmiði og það er ánægjulegt þegar eftir því er tekið,“ sagði Guðmundur Ármann Pétursson, framkvæmdastjóri á Sólheimum, í samtali við Sunnlenska. „Mér finnst mjög ánægjulegt að Skaftholt sé einnig í þessum hópi og við getum verið stoltir, Sunnlendingar, að eiga þarna tvo aðila af fjórum frá Íslandi.“

Tilkynnt verður um verðlaunahafann í tengslum við Norðurlandaráðsþing í Stokkhólmi þann 29. október.

Fyrri greinMengunarmælir á lögreglustöðina
Næsta grein„Góð lið finna leiðir til að vinna leiki“