Skaftárhreppur sparar með varmadælum

„Við greiðum 1,3 milljónir á mánuði í rafmagn,“ segir Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps, „og erum því að leita allra leiða við sparnað.“

Skaftárhreppur vinnur nú að því að setja upp varmadælur í félagsheimilum sveitarfélagsins, Tunguseli í Skaftártungu og Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri. Til þessa hefur verið kynt upp í Tunguseli með rafmagni en olíu á Kirkjuhvoli.

„Kostnaður við að setja upp varmadælurnar verður sennilega ein og hálf til tvær milljónir,“ segir Eygló en sveitarfélagið hefur líka sótt um styrk til verkefnisins til Orkustofnunar.